Skip to content

ÁBENDINGAR TIL FERÐALANGA

  • Á ferðalögum skal öryggi ferðalanga ávallt vera í farabroddi. Skjótt skipast veður í lofti og skyndileg veðrabrigði hafa orðið mörgum ferðalanginum að falli.  Vanbúnir ferðalangar setja sjálfa sig og ferðafélaga sína í hættu og því er mikilvægt að allir í hópnum séu vel búnir og við öllu búnir.  Einnig er mikilvægt að reynslulitlir ferðalangar fari ekki í leiðangra sem standa utan við þeirra þekkingu og reynslu.  Ferðir á jökla eða nokkurra daga vetrarferðir þar sem gist er í tjaldi geta verið lífshættulegar ef ekki eru með í för einstaklingar sem eru vanir fjallamennsku.
  • Fyrir brottför skaltu skoða veðurspá og kynna þér efnið á safetravel.is .  Sæktu 112 appið og settu inn á síma þinn sértu með iPhoneWindows eða Android síma.  Skráðu staðsetningu þína inn reglulega svo hægt sé að rekja slóð þína.  Það eykur líkurnar til muna á því að þú finnist ef þú tapar áttum.
  • Ávallt skal pakka hlýjum fötum þegar ferðast er innanlands, sama hver veðurspáin er.  Þótt veðurspáin sé góð getur nóttin verið köld og ef ferðalangur blotnar er mikilvægt að hann geti haldið á sér hita.  Lærið að klæðast í lögum svo ávallt sé hægt að halda þægilegu hitastigi á líkamanum.  Bómullarfatnað skal forðast að taka með sér í útivistarferðir því slíkur fatnaður nær ekki að halda hita á líkamanum ef hann verður rakur eða blotnar.  Í fjallamennsku er kennt að bómull sé beinlínis lífshættuleg af þessum sökum og fólk vant fjallamennsku hefur gjarnan í heiðri sem þumalputtareglu orðatiltækið “cotton kills”.
  • Sé gengið í óbyggðum er mikilvægt að reynt útivistarfólk sé með í för sem er kunnt aðstæðum.  Gerið ferðaáætlun og setjið inn í hana GPS hnit þeirra staða sem þið hyggist heimsækja.  Látið aðstandendur vita hvert haldið er og hvenær ætlunin er að snúa aftur.  Hafið ávallt varaáætlun tilbúna ef upprunalega áætlunin stenst ekki.  GPS tæki á síma er ekki hægt að treysta á þar sem ekki er símasamband því það þarf að sækja kort jafnóðum gegnum 3G netið meðan þú ert á ferðinni.  Síminn þinn getur verið líflína þín og því mikilvægt að þú leggir á minnið staði þar sem símasamband náðist seinast þegar og merkir inn GPS hnit þess.  Ef þú ert á göngu og getur ekki hlaðið símann þinn skaltu slökkva á honum þegar hann er ekki í notkun til þess að spara rafhlöðuna.
  • Gönguferðir í óbyggðum Íslands fela oftar en ekki í sér að vaðið sé yfir litlar ár svo góðir gönguskór með vatnsvörn eru mikilvægir í gönguferðum.  Gönguskór skulu vera þægilegir, léttir, vatnheldir og skulu anda vel og hleypa raka út.  Blautir eða rakir fætur eru mjög óþægilegir þegar gengið er og því ávallt skynsamlegt að hafa með sér nokkur pör af góðum sokkum.  Sé gengið yfir stærri/dýpri ár er gott að vera með vaðskó með sér svo ekki fari vatn ofan í gönguskóna.  Göngustafir eru mikilvægur öryggisbúnaður og hjálpa manni að halda jafnvægi þegar gengið er yfir straumvötn.
  • Fylgið ávallt slóðum þegar þess gefst kostur.  Náttúra Íslands er viðkvæm og mosagróður getur verið nokkur ár að jafna sig gangi hópur manna yfir hann.  Fjöldi ferðamanna í Íslenskum óbyggðum hefur margfaldast á undanförnum árum og er landið farið að láta á sjá vegna ágangs ferðamanna.  Tökum virkan þátt í að vernda landið okkar og bendum öðrum ferðalöngum á þessa staðreynd.  Takið ávallt með ykkur það rusl sem verður til af ykkar völdum og einnig það rusl sem þið rekist á.  Með þessu móti getum við haldið landinu okkar hreinu.  Sýnum gott fordæmi í íslenskri náttúru.
  • Sýnum varkárni kringum hveri sér í lagi þegar útlendir ferðalangar óvanir jarðhitasvæðum eru með í för.  Gjótur geta leynst undir mosagróðri þegar gengið er í hrauni og því skal fara varlega og ganga á göngustígum þegar þess gefst kostur.
  • Vanmetið ekki notagildi þess að hafa áttavita, kort og GPS tæki með í för.  Mjög algengt er að fólk týni áttum í stuttum gönguferðum á Esjunni þegar þoka skellur á og fjölmennt lið björgunarsveita þurfi til þess að finna fólkið.  Hægt er að niðurhala GPS hnitum fyrir fjölda gönguleiða hér.
  • Ef þú tekur með þér tjald í ferðalag skaltu prófa að tjalda því áður en lagt er af stað.  Ef tjaldið er ekki í lagi er hægt að forðast vandræði því tengdu áður en það verður að meiriháttar vandamáli.
  • Tjaldsvæði bjóða upp á þjónustu eins og rennandi vatn, sturtur, salerni, sorphirðu, rafmagn, heita reiti, grillaðstöðu og fleira en þjónustan er mismunandi eftir tjaldsvæðum.  Hyggist þú ferðast milli tjaldsvæða í sumar getur þú sparað pening með því að kaupa þér útilegukortið sem veitir frían aðgang að 30 tjaldsvæðum víðsvegar um landið.
  • Tryggðu það að svefnpokinn sem þú tekur með þér í ferðalag henti fyrir það ferðalag sem þú leggur upp í.  Á sumrin skal nota þriggja árstíða poka sé sofið í tjaldi og fjögurra árstíða poka á kaldari dögum ársins.  Flestir svefnpokar sem seldir eru hérlendis eru prófaðir samkvæmt evrópskum staðli og eru þægindamörk pokanna yfirleitt skráð á þá.  Gætið að því að þær hitatölur sem gera má ráð fyrir á ferðalagi séu innan þægindamarka svefnpokans sem þú tekur með þér.  Extreme mörk pokanna eru miðuð við það hitastig sem pokinn getur haldið notanda sínum á lífi.  Takið því ekki poka með Extreme mörk -5°C með í ferðalag þar sem hitastigið gæti orðið -5°C.  Dúnsvefnpokar missa einangrun sína ef þeir blotna og því er mikilvægt að halda þeim eins þurrum og kostur gefst.  Svefnpokar fylltir með gerviefnum á borð við fíber halda hluta einangrunargildis síns ef þeir blotna en eru þyngri og fyrirferðarmeiri en dúnpokar.  Silkipoki innan í svefnpoka gerir það að verkum að hægt er að nota pokann í kaldara veðri en annars og er munurinn 2-3 gráður.
  • Gætið að því að bakpokar séu í stærð sem hentar þeim sem þá bera og rétt stilltir fyrir bak þeirra sem þá bera.  Mestur hluti þyngdar bakpoka skal hvíla á mjöðmum og yfirleitt er ekki ætlast til þess að fólk beri meira en fjórðung líkamsþyngdar sinnar.  Ef bakpokinn er þungur á öxlunum er hann liklega ekki rétt stilltur fyrir þig.  Óþægilegur eða illa stilltur bakpoki getur hæglega breytt skemmtigöngu í píslargöngu.